Skipulagsstofnun hefur staðfest í áliti sínu að umhverfismatsskýrsla fyrir fyrstu lotu Borgarlínunnar, sem lögð var fram til kynningar og athugunar fyrir tveimur árum, uppfylli skilyrði laga um umhverfismat framkvæmda og áætlana. Þá hefur Reykjavíkurborg auglýst breytingu á deiliskipulagi vegna Borgarlínu og frekari uppbyggingu við Háskólann í Reykjavík.
Umhverfismatsskýrsla fyrir fyrstu lotu Borgarlínu (Ártúnshöfði – Hamraborg) í Reykjavík og Kópavogi var lögð fram til kynningar og athugunar Skipulagsstofnunar í júlí 2023. Skýrslan var svo kynnt með auglýsingu í Morgunblaðinu í nóvember 2024 og var gerð aðgengileg í Skipulagsgátt. Kynningarfundir voru haldnir með íbúum í Reykjavík og Kópavogi í janúar síðastliðnum og tekið var á móti ábendingum og athugasemdum.
Álit Skipulagsstofnunar liggur nú fyrir og þar segir að umhverfismatsskýrslan uppfylli skilyrði laga um umhverfismat framkvæmda og áætlana nr. 111/2021. Framkvæmdin er upphafsáfangi af samtals sex í kerfi almenningssamgangna á höfuðborgarsvæðinu sem ráðist verður í á næstu árum. Framkvæmdir við þessa fyrstu lotu hófust með landfyllingum fyrir Fossvogsbrú í janúar 2025.
Álit Skipulagsstofnunar í heild sinni.
Kort af áhrifasvæði umhverfismats.
Deiliskipulag vegna Borgarlínu við HR
Reykjavíkurborg hefur auglýst breytingu á deiliskipulagi vegna Borgarlínu og frekari uppbyggingar við Háskólann í Reykjavík. Fram kemur í frétt borgarinnar að markmiðið sé að koma innviðum Borgarlínunnar fyrir í almannarýminu í sem mestri sátt við nærumhverfi sitt.
Önnur markmið skipulagsins eru að endurskilgreina byggingarheimildir við Háskólann í Reykjavík og styrkja svæðið sem öflugan kjarna fyrir háskólastofnanir og tengd þekkingar- og rannsóknarfyrirtæki. Þá er lóðum vestan við Menntasveig fækkað í þrjár og miðað við að byggingarlist og umhverfi verði í háum gæðaflokki.
Deiliskipulagi Borgarlínu í Reykjavík er skipt niður í nokkra hluta þar sem leiðin liggur um mjög ólík svæði, hverfi og ólíkar deiliskipulagsáætlanir. Nú þegar er búið að samþykkja nokkrar deilisskipulagsáætlanir þar sem gert er ráð fyrir Borgarlínunni.
Opið er fyrir athugasemdir til 23. júlí og nálgast má allar upplýsingar í skipulagsgáttinni.
Kort af 1. lotu Borgarlínu: Ártúnshöfði – Hamraborg
Megin tilgangur deiliskipulags Borgarlínu: