Alda-brú yfir Fossvog.
Tillaga

1. vinningstillagaAlda · 0426052

Mannvirkið er látlaust en jafnframt kröftugt. Brúin virkar einföld við fyrstu sýn en vex við nánari skoðun. Brúin fellur áreynslulaust að umhverfi sínu og mjúk bylgjulögun brúarinnar er áhugaverð skírskotun í öldur hafsins.

Skoða tillögu

Samantekt dómnefndar

Vegagerðin, í samstarfi við Reykjavíkurborg og Kópavogsbæ, bauð til opinnar hönnunarsamkeppni um brú yfir Fossvog sem hleypt var af stokkunum í apríl á þessu ári.

Á fyrra þrepi keppninnar bárust 15 tillögur sem nálguðust viðfangsefni keppninnar á mjög fjölbreyttan hátt. Tillögurnar þrjár sem hlutu flest stig í fyrra þrepi áttu það sammerkt að vera með sterkt heildaryfirbragð og heildræna nálgun á veigamestu þætti verkefnisins. Var það mat dómnefndar að brýr samkvæmt tillögunum þremur hefðu alla burði til að sinna hlutverki sínu sem skilvirkt samgöngumannvirki og sem fallegt kennileiti á höfuðborgarsvæðinu.

Tillögurnar þrjár; Alda, Hvalbak og Sjónarrönd, eru ólíkar að útliti og yfirbragði eins og nöfn þeirra gefa til kynna. Í tillögunum er unnið á mismunandi hátt með nærumhverfi, áningarstaði við og á brúnni og nýjar tengingar beggja vegna Fossvogs. Tillögurnar voru missterkar í þeim matsþáttum sem dæmt var eftir en tillaga nr. 0426052, Alda, fékk góða einkunn í öllum flokkum. Ný brú mun skapa góðar tengingar fyrir vegfarendur milli Reykjavíkur og Kópavogs og ný tækifæri í upplifun við Fossvog.

Mat á tillögunum kemur fram í samanlögðum stigum fyrir fjóra matsþætti og rökstuðningur felst í sundurliðaðri stigagjöf fyrir hvern af matsþáttunum fjórum í samræmi við stigaskala sem skilgreindir eru í viðauka við keppnislýsingu. Umsögn er sett fram fyrir hvern af matsþáttunum fjórum og endurspeglar hún þau atriði sem helst var staldrað við í umfjöllun dómnefndar.

Niðurstaða dómnefndar á seinna þrepi

  1. Alda hlaut flest stig 110,4
    Tillaga nr. 0426052
  2. Hvalbak hlaut 102,2 stig
    Tillaga nr. 0223116
  3. Sjónarrönd hlaut 82,4 stig
    Tillaga nr. 2567739

Brú yfir Fossvog

Vegagerðin og sveitarfélögin Reykjavík og Kópavogsbær ásamt Betri samgöngum ohf. hafa unnið sameiginlega að undirbúningi brúar yfir Fossvog fyrir gangandi, hjólandi og umferð almenningsvagna. Brú yfir Fossvog er hluti af 1. áfanga uppbyggingar vegna Borgarlínu samkvæmt samgöngusáttmála höfuðborgarsvæðisins til 15 ára sem undirritaður var í september 2019.

Markmið með gerð brúar yfir Fossvog er að bæta samgöngutengingar milli Reykjavíkur og Kópavogs en brúin verður 270 m löng og mun liggja frá flugbrautarenda Reykjavíkurflugvallar vestan Nauthólsvíkur yfir á norðaustur-hluta Kársnestáar. Brúnni er ætlað að styðja við vistvæna samgöngukosti á svæðinu ásamt því að stytta ferðalengdir, dreifa umferðarálagi og styðja við aðra ferðamáta en einkabílinn.

Boðið var til opinnar hönnunarsamkeppni um útlit og hönnun brúar yfir Fossvog í byrjun árs 2021. Vegagerðin bauð keppnina út á Evrópska efnahagssvæðinu fyrir hönd samstarfsaðilanna en Ríkiskaup hélt utan um hönnunarsamkeppnina og samskipti á tilboðstíma. Samkeppnin var í tveimur þrepum og var nafnleyndar gætt á báðum þrepum fyrir milligöngu trúnaðarmanns frá Ríkiskaupum sem annaðist öll samskipti við keppendur.

Fimmtán tillögur voru sendar inn en dómnefndin valdi þrjár tillögur til þátttöku í seinna þrepi samkeppninnar. Við mat á tillögum var horft til þess að brúin á að vera eftirtektarvert kennileiti á höfuðborgarsvæðinu en taka um leið mið af staðsetningu við friðsælan og einstakan náttúrulegan vog. Brúin skal vera fallegt mannvirki og endurspegla metnaðarfulla byggingalist með sterkt heildaryfirbragð. Hún þarf þó einnig að vera hagnýt, búa til nýjar tengingar og styðja við göngu- og hjólastíga sveitarfélaganna. Brúin og umhverfi hennar á að styrkja lífið við strandlengjuna og skapa tengsl milli svæða við ströndina sem hafa aðdráttarafl, eins og Nauthólsvík, Háskólann í Reykjavík og uppbyggingu á Kársnessvæðinu og nálæga íbúðabyggð. Hún skal einnig styðja við vinsælar útivistarleiðir strandlengjunnar og nærsvæði hennar, sögu, náttúru og menningarminjar.

Dómnefndarfulltrúar tilnefndir af Vegagerðinni
Óskar Örn Jónsson Byggingar- og rekstrarverkfræðingur, forstöðumaður framkvæmdadeildar Vegagerðarinnar. Formaður.
Guðrún Þóra Garðarsdóttir Brúarverkfræðingur, hönnunardeild Vegagerðarinnar.
Ingvar Jón Bates Gíslason Arkitekt, skrifstofu skipulagsfulltrúa, Reykjavíkurborg.
Ragnhildur Skarphéðinsdóttir Landslagsarkitekt, FÍLA.
Nína Baldursdóttir Byggingarverkfræðingur, verkefnastjóri á framkvæmdadeild Kópavogsbæjar.
Ritari dómnefndar
Árni Geirsson Ráðgjafi hjá Alta
Trúnaðarmaður dómnefndar
Hafdís Vala Freysdóttir Verkefnastjóri hjá Ríkiskaupum
Verkefnisstjóri samkeppnisferilsins
Kristján Árni Kristjánsson Verkfræðingur hjá Vegagerðinni.