Íbúum höfuðborgarsvæðisins mun fjölga mikið á næstu árum og er áætlað að fjöldi þeirra verði um 300.000 árið 2040. Haldist ferðavenjur óbreyttar munu umferðartafir aukast verulega á þeim tíma, jafnvel þótt fjárfest verði umtalsvert í innviðum fyrir bílaumferð.
Lausnin felst í aukinni fjölbreytni og raunhæfum valkostum til að íbúar komist ferða sinna.
Með þróun skilvirkra og vistvænna almenningssamgangna er stefnt að því að sem flestir geti ferðast hratt og örugglega á milli svæða á hagkvæman og einfaldan hátt. Þannig færist höfuðborgarsvæðið inn í grænni framtíð.
Núverandi kerfi Strætó byggir á þekjandi kerfi þar sem algengt er að vagnar aki lengri leiðir til að stoppa sem víðast í hverfum. Með slíku kerfi dreifist þjónustan yfir stærra landsvæði og ferðatíminn verður lengri.
Nýtt leiðanet byggir á þátttökukerfi. Þar er tíðni mest þar sem byggð íbúa og vinnustaða er mest. Leiðirnar eru beinni, með hærri tíðni, styttri ferðatíma og fleiri farþega. Kerfið er hagkvæmara og skilvirkara. Hægt verður að ferðast beint á milli helstu kjarna með hærri tíðni og styttri ferðatíma, laus við tafir vegna sérrýmis. Almenningssamgöngur verða því raunhæfari valkostur.
Borgarlínan felur í sér stóraukna þjónustu við almenning í styttri ferða- og biðtíma, færri skiptingum og betra aðgengi.
Almenningssamgöngur og virkir ferðamátar á borð við gangandi og hjólandi verða raunhæfur og góður valkostur sem mun hafa jákvæð áhrif á heilsu og líðan fólks.
Að nýta virka ferðamáta er fjárhagslega hagkvæmt, ekki bara fyrir einstaklinginn heldur samfélagið allt. Aukning í virkum ferðamátum getur stuðlað að fækkun bílslysa og haft jákvæð áhrif á almenna líðan og heilsu fólks, sem skilar sér í minni kostnaði fyrir heilbrigðiskerfið.
Borgarlínan verður megin drifkrafturinn í þróun höfuðborgarsvæðisins í átt að sjálfbæru kolefnishlutlausu borgarsamfélagi, þar sem ungir sem aldnir fá raunhæft val um vistvæna ferðamáta með aðgengilegum almenningssamgöngum, hjóla- og göngustígum.
Með aukinni notkun á vistvænum ferðamátum minnkar bílaumferð auk þess sem dregur úr svifryks- og hljóðmengun og losun gróðurhúsalofttegunda minnkar.
Borgarlínan verður knúin vistvænum, innlendum orkugjöfum.
Hágæða almenningssamgöngur eru nauðsynlegur hluti af fjölbreyttum ferðamáta framtíðarinnar. Þær verða til bóta hvort sem valið er að ganga, hjóla, nota almenningssamgöngur eða einkabíl. Félagshagfræðigreining á fyrsta áfanga Borgarlínunnar sýnir að án hennar muni heildarferðartími aukast fyrir alla samgöngumáta.
Hjóla- og göngustígar þjóna einnig þeim mikilvæga tilgangi að vera síðasti spölurinn frá borgarlínustöð á áfangastað: í fyrstu lotu verða lagðir 18 km af nýjum hjólastígum og 9 km af göngustígum.
Samhliða uppbyggingu Borgarlínunnar verður ráðist í umfangsmiklar endurbætur á stofnvegakerfinu og innviðir fyrir hjólreiðafólk og gangandi verða stórbættir, eins og kemur fram í Samgöngusáttmálanum. Sú uppbygging mun m.a. stytta ferðatíma hjólreiðafólks verulega og bæta þar að auki við nýjum möguleikum og svæðum til að njóta útivistar.
Í efnahagslegri greiningu OECD á Íslandi árið 2019 var ein helsta ráðleggingin til að bæta opinberar fjárfestingar sú að framkvæma ítarlega félagshagfræðilega greiningu áður en ráðist yrði í stór innviðaverkefni. Slík greining metur kostnað og ábata verkefnis og lýsir áhrifum þess á t.d. notendur, yfirvöld, helstu ferðamáta og umhverfi.
Samkvæmt félagshagfræðilegri greiningu á fyrstu þremur lotum Borgarlínunnar mun verkefnið skila 26 milljarða króna samfélagslegum ábata umfram kostnað. Innri arðsemi er metin rétt tæp 7% að raunvirði.
Við greininguna var farið eftir alþjóðlega viðurkenndum stöðlum sem OECD og Evrópusambandið mæla með.
Vatnsmýrin séð úr borgarlínuvagni.