Spurt og svarað

Ert þú með spurningu sem varðar Borgar­línuna?

Ef einhverjar spurningar varðandi Borgar­línuna vakna er hægt að hafa samband við okkur í gegnum netfang okkar. Við svörum í þeirri röð sem póstar berast.

borgarlinan@borgarlinan.is

Spurt og svarað

Borgarlínan verður í sérrými alls staðar þar sem er raunhæft að hún sé í sérrými. Í fyrstu framkvæmdalotu er áætlað að 71% sé í sérrými, 29% sé í blandaðri bílaumferð.

Borgarlínan verður megin drifkrafturinn í þróun höfuðborg­ar­svæðisins í átt að sjálfbæru kolefn­is­hlutlausu borgar­sam­félagi, þar sem ungir sem aldnir fá raunhæft val um vistvæna ferðamáta með aðgengilegum almenn­ings­sam­göngum, hjóla- og göngustígum.

  • Með aukinni notkun á vistvænum ferðamátum minnkar bílaumferð auk þess sem dregur úr svifryks- og hljóðmengun og losun gróður­húsaloft­tegunda minnkar.
  • Vagnar Borgar­línunnar verða vistvænir og mikil áhersla verður lögð á að auka umhverf­isgæði meðfram línunni.

Í aðgerðará­rætlun ríkisstjórn­arinnar í loftslagsmálum til að ná markmiðum Parísar­samn­ingsins koma fram skýr markmið um að draga úr losun frá vega- og gatnasam­göngum sem og áhersla á að breyta ferðavenjum með því að styrkja innviði fyrir virka ferðamáta og eflingu almenn­ings­sam­gangna. Markmiðið með aðgerðunum er að losun frá samgöngum á landi árið 2030 hafi dregist saman um 26 þúsund tonn af CO2 ígildum. Borgar­línunni er ætlað mikilvægt hlutverk við að ná fram þessu markmiði.

Í svæðis­skipulagi höfuðborg­ar­svæðisins 2040 eru skilgreindir samgöngu- og þróunarásar. Gert verður ráð fyrir auknum bygging­ar­heimildum á þróunarásum með það að markmiði að þétta byggð.

Þessir ásar eru grundvöllur stofnleiða sem leiðakerfi Strætó og Borgarlínu mun byggja á. Markmiðið með því er að árið 2040 muni a.m.k. 2/3 íbúa á höfuðborg­ar­svæðinu búa í göngufjarlægð við góðar almenn­ings­sam­göngur.

Rannsóknir hafa sýnt að blönduð hæfilega þétt byggð og gott aðgengi að almenn­ings­sam­göngum eru þeir þættir sem mestu ráða um hvort fólk noti þær.

Verði ekki farið í Borgar­línuna mun heildar­ferð­artími aukast í öllum samgöngumátum. Því fleiri sem nota almenn­ings­sam­göngur, því styttri verður heildar­ferð­artími á höfuðborg­ar­svæðinu.

Á einhverjum köflum verður þrengt að bílaumferð en það er þó ljóst að í heildina verður Borgarlínan til þess að draga úr umferðatöfum fyrir einkabílinn.

Vert er að minnast á Samgöngusáttmála ríkisins og sex sveitar­félaga á höfuðborg­ar­svæðinu í þessu samhengi. Samgöngusátt­málinn var gerður árið 2020 og nær til 2015, í honum felst metnað­arfull uppbygging á samgöngu­innviðum og almenn­ings­sam­göngum:

  • 52,2 milljarðar verða lagðir í stofnvegi
  • 49,6 milljarðar verða lagðir í innviði Borgar­línunnar og almenn­ings­sam­göngur
  • 8,2 milljarðar verða lagðir í göngu- og hjólastíga, göngubrýr og undirgöng
  • 7,2 milljarðar verða lagðir í bætta umferð­ar­stýringu og sértækar öryggis­að­gerðir

 

Í greiningum fyrir Borgar­línuna er gert ráð fyrir 44% aukningu í fjölda farþega (frá 2019). Hluti af því skýrist af áætlun um mikla fjölgun íbúa, sem verða yfir 300.000 innan næstu tveggja áratuga, en einnig munu bætt þjónusta, hraðari og tíðari ferðir laða að sér fleiri viðskiptavini.

Já, vagnakaup eru vissulega tekin með í reikninginn. Sem dæmi má nefna að kaup og rekstur vagna er hluti af rekstr­ar­kostnaði leiðar­kerfisins í félags­hag­fræðilegri greiningu á fyrsta áfanga Borgar­línunnar.

Borgarlínan og Strætó verða hluti af einu, heildstæðu almenn­ings­sam­gangnakerfi þar sem borgar­línu­leiðir verða eins og slagæðar milli helstu kjarna höfuðborg­ar­svæðisins.

Í hinu Nýja leiðakerfi Strætó, sem er langt komið í þróun, er gert ráð fyrir tvenns konar leiðum: Stofnleiðum og almennum leiðum. Stofnleiðirnar eru grunnurinn að framtíð­ar­skipan Borgarlínu, og breytast þær í borgar­línu­leiðir eftir því sem sérrýmið byggist upp, en með sérrými eykst tíðni ferða og ferðatími styttist.

Til að hægt sé að auka tíðni og stytta ferðatíma þarf Borgarlína að komast leiðar sinnar óháð bílaumferð og sérrými (borgar­línu­brautir) er því lykilatriði fyrir hið nýja samgöngukerfi.

Æskilegt er að borgar­línu­brautir verði miðlægar og sú útfærsla er algengust í nýlegum hágæða almenn­ings­sam­göngu­kerfum. Kostir slíkrar útfærslu eru miklir, þá helst vegna þess að tafir almenn­ings­sam­gangna eru lágmarkaðir og gott aðgengi er að stöðvum. Vagnar geta keyrt bæði inni í sérrými og í blandaðri umferð en borgar­línu­vagnar munu þurfa að keyra í blandaðri bílaumferð á einstaka stöðum, þar sem ekki er nóg pláss fyrir sérrými.

Á árunum 2023-2033 verða lögð sérrými fyrir Borgarlínu inná hið Nýja leiðanet Strætó: Stofnleiðir Strætó munu breytast í borgar­línu­leiðir eftir því sem sérrýmið byggist upp.

Hluti sérrýma mun nýtast fleiri en einni leið Borgarlínu sem og Strætó og mun hlutfall sérrýma aukast hratt þegar á líður. Þá verður sérrýmið aðgengilegt neyðarakstri sem bætir öryggi íbúa höfuðborg­ar­svæðisins.

Vagnar Borgarlínu verða liðskiptir og knúnir af innlendum, vistvænum orkugjöfum. Þeir verða ýmist 18 m langir (einn liður) eða 24 m langir (tveir liðir) og því lengri en hefðbundnir strætis­vagnar og geta tekið allt að 160 farþega.

Vagnarnir verða rýmri að innan en hefðbundnir almenn­ings­vagnar og hafa bæði tröppu­lausan gólfflöt og tröppulaust aðgengi frá brautarpalli. Fargjald er greitt á brautar­pallinum og því er hægt að ganga inn um hvaða hurð sem er á vagninum.

Íbúum höfuðborg­ar­svæðisins mun fjölga um 70.000 til ársins 2040 – eða um 90 í hverri einustu viku. Því fylgir stóraukinn bílafloti og umferð­arspár sýna að þrátt fyrir miklar fjárfestingar í samgöngu­mann­virkjum aukast umferð­artafir verulega ef ekki tekst að fjölga þeim sem nýta sér aðra ferðamáta en einkabílinn.

Þar koma góðar almenn­ings­sam­göngur sterkar inn, en þess ber að geta að Borgarlínan og Strætó munu starfa saman í einu heildstæðu kerfi. Með Borgar­línunni verða almenn­ings­sam­göngur að raunhæfum valkosti sem sniðinn er að þörfum notenda.

Ef fleiri nota hágæða almenn­ings­sam­göngur nota færri einkabílinn sem dregur úr neikvæðum áhrifum umferðar: Svifryki, losun gróður­húsaloft­tegunda og hljóðmengun, og tafir í umferðum minnka. Þá benda rannsóknir til að innleiðing hágæða almenn­ings­sam­gangna hafi jákvæð áhrif á umferðaröryggi fyrir alla ferðamáta.

Bílastæðum mun vissulega fækka eitthvað við uppbyggingu Borgar­línunnar. Reynslan erlendis frá hefur hins vegar sýnt fram á að alls staðar þar sem hágæða almenn­ings­sam­göngum hefur verið komið á hefur fasteignaverð hækkað og viðskipti blómstrað.