Borgarlínan

beinustu leið til framtíðar

1. Hvað er Borgarlínan?

  • Borgarlína er hraðvagnakerfi á hjólum (BRT) sem ekur á sérrými með forgangi á gatnamótum, þannig eykst áreiðanleiki, hagkvæmni og þjónusta verður betri.

  • Tíðni ferða verður mikil, stöðvar verða yfir- byggðar, aðlaðandi og þægilegar með góðu aðgengi beint inn í vagnanna.

2. Samgöngu- og þróunarás

  • Í svæðisskipulagi höfuðborgarsvæðisins 2040 eru skilgreindir samgöngu- og þróunarásar sem eru grundvöllur stofnleiða sem leiðakerfi Strætó og Borgarlínu mun byggja á. Gert verður ráð fyrir auknum byggingarheimildum á þróunarásum með það að markmiði að þétta byggð.

  • Markmiðið er að árið 2040 muni a.m.k. 2/3 íbúa á höfuðborgarsvæðinu búa í nálægð við góðar almenningssamgöngur. Rannsóknir hafa sýnt að blönduð hæfilega þétt byggð og gott aðgengi að almenningssamgöngum eru þeir þættir sem mestu ráða um hvort fólk noti þær.

3. Borgarlína og Strætó

  • Nýtt stofnleiðanet Strætó verður grunnur að framtíðarskipan Borgarlínu. Stofnleiðir ná yfir ólík hverfi og sveitarfélög með það markmið að almenningssamgöngur verði tíðari og skilvirkari.

  • Meginhlutverk Borgarlínu verður að flytja fólk hratt og örugglega milli helstu kjarna og þróunarsvæða. Mikilvægt er að tryggja gott aðgengi að stöðvum og móta aðlaðandi umhverfi.

4. Af hverju Borgarlína?

  • Íbúum höfuðborgarsvæðisins mun fjölga um 70.000 til ársins 2040 Umferðarspár sýna að þrátt fyrir miklar fjárfestingar í samgöngumannvirkjum aukast umferðartafir verulega ef ekki tekst að fjölga þeim sem nýta sér aðra ferðamáta en einkabílinn. Vagnar Borgarlínu geta tekið um 150-200 farþega

5. Sérrými Borgarlínu

  • Á árunum 2023-2033 verða lögð sérrými fyrir Borgarlínu inná Leiðanet Strætó. Greint hefur verið hvar þörfin er mest fyrir sérrými að teknu tilliti til tafa vegna umferðarþunga.

  • Hluti sérrýma mun nýtast fleiri en einni leið Borgarlínu og mun hlutfall sérrýma aukast hratt þegar á líður. Til að hægt sé að auka tíðni þarf Borgarlína að komast leiðar sinnar óháð bílaumferð.

6. Uppbygging sérrýma

  • Með nýju leiðaneti Strætó eru markaðar stofnleiðir almenningssamgangna. Sérrými Borgarlínu verða byggð við stofnleiðirnar í eftirfarandi áföngum:

Fréttir

24.10.2019

Samstarf um hentugasta orkugjafa Borgarlínu

Landsvirkjun, Strætó, Samtök sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu og Vegagerðin hafa efnt til samstarfs um greiningu á hentugasta orkugjafa fyrir Borgarlínu.

Borgarlínan hefur verið í þróun um árabil, en nú er komið að því að taka markviss skref til að byggja undir ákvörðun um orkugjafa Borgarlínu. Fyrir liggur að orkugjafinn á að vera vistvænn og innlendur. Verkefnið er unnið í tengslum við fyrstu framkvæmdir Borgarlínu sem eiga að hefjast árið 2021 og leiðarkerfisbreytingu Strætó sem unnið er nú að í samvinnu við verkefnastofu Borgarlínu og miðað er við að komi til framkvæmda með akstri fyrstu tveggja Borgarlínuleiða árið 2023. Borgarlínan verður hluti af leiðarkerfi Strætó bs., en fyrirtækið hefur verið leiðandi í orkuskiptum á Íslandi og hefur haft þá stefnu að kaupa ekki fleiri dísilvagna fyrir strætisvagnakerfi höfuðborgarsvæðisins.

Vetni, rafhlöður og metan - mismunandi styrkleikar orkugjafa Markmiðið er að orkugjafi Borgarlínu verði vistvænn og innlendur. Vetni, rafhlöður og metan hafa mismunandi eiginleika og koma allir til greina fyrir vagna Borgarlínu. Við valið á orkugjafanum er mikilvægt er að meta orkukostnað og fjárfestingakostnað, auk þess sem taka þarf tillit til margra þátta eins og staðsetningu áfyllingastöðva, rekstraröryggis, útstreymi gróðurhúsalofttegunda, skipulagsmála, staðbundinnar loftmengunar, hljóðmengunar og fleira yfir líftíma verkefnis.

22.10.2019

Opnir fundir um nýtt Leiðanet Strætó

Starfsfólk Strætó og verkefnastofu Borgarlínu verða til skrafs og ráðgerða varðandi tillögur að nýju Leiðaneti Strætó á höfuðborgarsvæðinu næstu daga. Þar gefst áhugasömum tækifæri til að koma með ábendingar og fræðast um hið nýja leiðanet sem Borgarlína mun ferðast um í framtíðinni.

Fundir eru sem hér segir:

Mánudagur 21. október

15:00-18:00 Kjarni, Mosfellsbæ.

Þriðjudagur 22. október

15:00 - 18.00 Mjódd, Reykjavík.

Fimmtudagur 24. október

15:00-18:00 Smáralind, Kópavogi.

Mánudagur 28. október

15:00-18:00 Fjörður Hafnarfirði.

Þriðjudagur 29. október

12:00-18:00 Háskólatorg. Reykjavík.

Fimmtudagur 31. október

16:00-18:00 Garðatorg, Garðabæ.

27.09.2019

Fjármögnun Borgarlínu tryggð

Undirritun samkomulags mili ríkisvaldsins og sex sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu markar þáttaskil í rekstri og undirbúningi Borgarlínu. Fjármögnun Borgarlínu liggur nú fyrir og framundan er áframhaldandi vinna við skipulag og hönnun.

Framkvæmdir við fyrstu tvo áfanga sérakrýma Borgarlínu hefjast árið 2021 og verður þeim lokið árið 2023. Í kjölfarið verða útbúin sérakrými sem tengjast fyrirliggjandi stofnleiðum en þau munu styrkja og efla leiðarkerfi Borgarlínu. Tengingar Borgarlínu við leiðarkerfi Strætó skipta hér lykilmáli og er vinna hafin við hönnun og skipulag þeirra.

Hér að neðan má sjá áætlun um uppbyggingu sérakrýma Borgarlínu í samræmi við samkomulag ríkis og sveitarfélaganna.

Hlemmur - Ártún

2021-2023

Hamraborg - Hlemmur

2021-2023

Hamraborg - Lindir

2023-2024

Mjódd - BSÍ

2024-2026

Kringlan - Fjörður

2027-2030

Ártún - Spöng

2029-2031

Ártún - Mosfellsbær

2031-2033

06.09.2019

Leit að hönnunarráðgjafa fyrir Borgarlínu hafin

Segja má að leit að hönnunarráðgjafa vegna Borgarlínu hafi byrjað þann 6. september sl. þegar Verkefnastofa Borgarlínu hóf að miðla upplýsingum um verkefnið til helstu sérfræðinga á þessum vettvangi bæði hér á landi og erlendis, til að kanna áhuga þeirra. Það ferli sem nú er hafið kallast á ensku Request for Information (RFI) og stendur til 1. október 2019. Í kjölfarið er gert ráð fyrir að halda opinn kynningarfund þar sem íslenskum og erlendum sérfræðingum sem áhuga hafa á verkefninu verður boðið að koma og fá frekari upplýsingar og að byggja upp verkefnateymi sem síðan verður boðið í forvalsútboð.

Á næstu mánuðum fer fram fjölþætt greiningavinna hjá Verkefnastofu Borgarlínu sem meðal annars miðar að því að svara spurningum um nákvæmar staðsetningar á stöðvum, hvaða orkugjafi henti best, áhrif Borgarlínu á umhverfið, loftslag og aðra ferðamáta og hvernig hægt sé að tryggja aðlaðandi umhverfi fyrir íbúa höfuðborgarsvæðisins. Samhliða þessari greiningarvinnu þarf að skrifa útboðsgögn fyrir verkhönnun Borgarlínu og finna hönnunarráðgjafa fyrir verkefnið.

02.09.2019

Kynningarfundur um nýtt leiðanet Strætó

Kynningarfundur um nýtt leiðakerfi Stætó var haldinn 2. september fyrir félagsmenn í Samtökum um bíllausan lífsstíl. Frekari kynningar fyrir almenning eru fyrirhugaðar á næstu vikum og mánuðum. Með tilkomu Borgarlínu þarf að aðlaga leiðakerfi Strætó að Borgarlínu þar sem hún mun að hluta til aka sömu vegkafla og núverandi leiðakerfi Stætó. Nýja leiðanetið er skipulagt til að tengja vagna Strætó við stofnleiðanet Borgarlínu. Þá kalla skipulagsbreytingar á Hlemmi og á umferðarmiðstöð BSÍ einnig á breytingu á núverandi leiðakerfi Strætó.

Stefnumótunarvinna vegna breytinga á leiðakerfinu hófst í febrúar en þá var skipaður faghópur um verkefnið sem áætlað er að skili tillögum til stjórnar Strætó í nóvember á þessu ári. Af hálfu Strætó er lögð áherslu á að samráð verði haft við íbúa höfuðborgarsvæðisins í þessari vinnu. Í faghópnum eru fulltrúar frá Strætó, sveitarfélögunum á höfuðborgarsvæðinu, Vegagerðinni, samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytinu og Samtökum um bíllausan lífstíl.

15.08.2019

Samið við Mannvit og COWI um nýtt samgöngulíkan fyrir höfuðborgarsvæðið

Í dag var gengið frá samningi við Mannvit og dönsku ráðgjafastofuna COWI um gerð nýs samgöngulíkans fyrir höfuðborgarsvæðið.

Með nýju samgöngulíkani er stefnt að nákvæmari greiningum en hægt hefur verið að fá hingað til á samspili ólíkra ferðamáta. Líkanið er forsenda þess að hægt sé t.d. að meta samspil Borgarlínu og breytts leiðanets Strætó og verður jafnframt grunnur að greiningum á borð við leiðarskipulag, vagnastærðir, vagnafjölda, loftslagsáhrif, samfélagsleg áhrif og kostnaðarmat.

Óskað var eftir tilboðum í nýtt samgöngulíkan fyrir höfuðborgarsvæðið þann 4. júní síðastliðinn og bárust fimm tilboð sem öll voru frá mjög hæfum sérfræðingum og gerðu öll ráð fyrir samvinnu innlendra og erlendra sérfræðinga. Þetta voru fyrirtækin EFLA í samvinnu við sænsku ráðgjafana WSP, Mannvit í samvinnu við dönsku ráðgjafana COWI, Intraplan Consult sem er þýskt ráðgjafafyrirtæki, Verkís í samvinnu við Multiconsult í Noregi og T-Mode í Serbíu og VSÓ ráðgjöf í samvinnu við PTV Group í Þýskalandi.

Tilboð Mannvits og COWI fékk hæstu einkunn þriggja manna dómnefndar og því var gengið til samninga við þau. Gert er ráð fyrir að líkanið verði tilbúið í janúar 2020. Eitt af lykilmarkmiðum Borgarlínuverkefnisins er að tryggja uppbyggingu innlendrar þekkingar á sviði almenningssamgangna og samspili ólíkra ferðamáta.

06.07.2019

Verkefnastofa Borgarlínu tekur til starfa

Verkefnastofa Borgarlínu hefur tekið formlega til starfa og mun sinna undirbúningi fyrir fyrsta áfanga Borgarlínu á höfuðborgarsvæðinu. Verkefnastofan starfar á grundvelli samnings Vegagerðarinnar og sveitarfélaganna á höfuðborgarsvæðinu, sem lagður var grunnur að í samgönguáætlun. Samkomulagið felur í sér að Samtök sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu (SSH) og Vegagerðin skipta með sér kostnaði vegna undirbúningsvinnunnar á árunum 2019 og 2020 og brúa þannig bil þar til samkomulag hefur náðst um fyrirkomulag og fjármögnun á öllum samgöngukerfum á höfuðborgarsvæðinu næstu 15 árin.

Verkefni stofunnar er að ljúka forhönnun Borgarlínu, yfirfara leiðarkerfi almenningssamgangna, kostnaðarmat, skipulagsvinna og gerð umhverfismats, þannig að í framhaldinu verði hægt að hefja verkhönnun og undirbúa gerð útboðsgagna fyrir framkvæmdir.", "Stýrihópur eigenda fer með yfirstjórn Verkefnastofunnar og tryggir sterkt eignarhald verkefnisins. Framkvæmdastjórn þess er í höndum framkvæmdastjóra SSH og forstjóra Vegagerðarinnar en verkefnisstjóri er Hrafnkell Á. Proppé svæðisskipulagsstjóri hjá SSH.

Á verkefnastofunni eru þrír verkefnastjórar sem mynda verkefnateymi, þau Bryndís Friðriksdóttir samgönguverkfræðingur, Hrafnkell Á. Proppé skipulagsfræðingur og Lilja G. Karlsdóttir samgönguverkfræðingur. Verkefnateymið mun njóta stuðnings sérfræðinga Vegagerðarinnar, sveitarfélaganna og Strætó bs. Í undirbúningsferlinu verður jafnframt leitað til utanaðkomandi ráðgjafa, bæði innlendra og erlendra.