Betri almenn­ings­sam­göngur

Borgarlínan og Strætó munu saman mynda heildstætt leiðanet almenningssamgangna á höfuðborgarsvæðinu. Í Nýju leiðaneti eru skilgreindar tvær megingerðir leiða: Stofnleiðir og almennar leiðir. Stofnleiðirnar verða sjö talsins og munu tengja sveitarfélög og stærstu hverfi höfuðborgarsvæðisins.

Stofnleiðirnar eru Borgarlínuleiðir framtíðarinnar. Eftir því sem uppbyggingu sérrýmis vindur fram breytast stofnleiðir í Borgarlínuleiðir. Þá eykst skilvirkni og ferðatími styttist.

Borgarlínan verður með góðar tengingar við strætisvagna sem koma frá nágrannasveitarfélögum.

Strætó og Borgarlínan

Stofnleiðanetið er grunnur Borgar­línunnar

Hið Nýja leiðanet, sem nú er í vinnslu, er hannað á þann hátt að bæði borgar­línu­vagnar og aðrir strætis­vagnar geta ekið út úr sérrýminu og ferðast hluta leiðarinnar í blandaðri umferð. Þetta felur í sér mikinn sveigj­anleika og styttri ferðatíma fyrir farþega.

Aðrar leiðir munu nýta sérrýmið að hluta og fá aukinn forgang á þeim hluta leiðarinnar sem styttir ferðatíma farþega.

Þegar sérrými hefur verið byggt upp á a.m.k. helming stofnleiðar breytist hún í borgar­línuleið.

Sjáðu nýtt leiðarnet Strætó

Betri þjónusta

Nýtt leiðanet miðar að því stórauka þjónustu við íbúa höfuðborg­ar­svæðisins. Biðin eftir vagni á stofnleiðum, þar með talið borgar­línu­leiðum, verður aldrei löng en þeir munu koma á um 7-10 mínútna fresti á annatíma og ferðatími mun einnig styttast til muna.

Miðað við fyrstu hugmyndir að Nýju leiðaneti mun íbúum sem búa í göngufæri við slíka þjónustu fjölga verulega.

Á borgar­línu­leiðum verður fargjald greitt áður en stigið er í vagninn og aðgengi verður sérlega gott því gengið verður þrepalaust inn um allar dyr. Hvoru tveggja mun stytta þann tíma sem vagninn er á stöðvum og þar með ferðatímann.

Styttri ferðatími

Uppbygging Borg­ar­lín­unnar og innleiðing á Nýju leiðaneti mun hafa þann ávinning að ferða­tími almenn­ings­sam­gangna mun styttast fyrir flesta. Ekki bara á borg­ar­línu­leiðum heldur öllum leiðum sem nýta sérrýmið að hluta.

Sem dæmi um áætlaða stytt­ingu ferða­tíma má gera ráð fyrir að það muni taka 11 mínútum styttri tíma að ferðast frá Hamra­borg til HR og frá Seltjarn­ar­nesi að Kringl­unni.

Sérrými fyrstu lotu munu einnig nýtast öðrum leiðum, stytta ferða­tíma þeirra og greiða fyrir umferð.

Fyrsta lota

Fyrstu borgar­línu­leiðirnar

Stærsta breytingin í Nýju leiðaneti verður í kjölfar framkvæmda fyrstu lotu Borgar­línunnar þar sem myndast nýjar tengingar með brúm yfir Fossvog og Elliðaárvog.  Áætlað er að þegar þeim framkvæmdum er lokið hefji fyrstu tvær borgar­línu­leiðirnar akstur, frá miðborginni til og frá Vatnsenda annarsvegar og Egilshöll hinsvegar. Samtímis verður Nýja leiðanetið innleitt heildstætt.

Fyrsta framkvæmdalotan felst í að byggja sérrými, borgar­línu­brautir, á um 14,5 km löngum kafla, frá Hamraborg í Kópa­vogi um miðborg Reykjavíkur að Ártúnshöfða.

Borgar­línu­vagnar geta ekið á venjulegu gatnakerfi og því munu borgar­línu­vagnarnir á leið A, keyra áfram frá Hamraborg í blandaðri umferð alla leið upp í Vatnsenda og leið B, mun aka frá Ártúnshöfða í blandaðri umferð að endastöð við Egilshöll.

Borgar­línu­leiðirnar munu því í fyrstu lotu aka frá Vatnsenda alla leið í Egilshöll.

Næstu borgar­línu­leiðir

Uppbygging Borgar­línunnar er langtíma verkefni og mun borgar­línu­leiðum fjölga jafnt og þétt á tímabili samgöngusátt­málans.

Sá sveigj­anleiki að vagnar geta keyrt inn og út úr sérrými, býður upp á að hægt er að byggja upp innviði í lotum. Samgöngusátt­málinn brýtur uppbyggingu Borgar­línunnar niður í sex lotur. Að samgöngusátt­málanum liðunum munu  sex af sjö stofnleiðum Strætó hafa breyst yfir í borgar­línu­leiðir.

Á kortinu hér til hliðar má sjá hvenær áætlað er að loturnar verði tilbúnar.