Hvað er Borgarlínan?

Nýtt hryggj­ar­stykki almenn­ings­sam­gangna

Borgarlínunni má líkja við slagæð sem flytur fólk á greiðan og öruggan máta eftir helstu samgöngu- og þróunarásum höfuðborgarsvæðisins. Borgarlínan og Strætó verða tvinnuð saman í heildstæðu, hágæða leiðaneti en auk þess verður áhersla lögð á að borgarlínustöðvar séu vel tengdar hjóla- og göngustígum.

Borgarlínan er hágæða almenningssamgangnakerfi (e. Bus Rapid Transit) sem mun aka að mestu í sérrými og hafa forgang á gatnamótum. Þannig styttist ferðatími og tíðni ferða eykst — það verður alltaf stutt í næsta vagn.

Stöðvar verða yfirbyggðar, aðlaðandi og þægilegar með þrepalausu aðgengi inn í vagnana.

Borgarlínan verður með góðar tengingar við strætisvagna sem koma frá nágrannasveitarfélögum.

Uppbygging í Hamraborg, áætluð framkvæmdalok 2026

Uppbygging í Hamraborg, áætluð framkvæmdalok 2026

Umfangsmestu innviðaframkvæmdir sögunnar

Samgöngusátt­málinn

Borgarlínan byggir á stefnu og ákvörðunum stjórnvalda og ítarlegum undirbúningi á undanförnum árum. Þar vegur hvað þyngst samgöngusáttmáli ríkis og sveitar­fé­laganna á höfuðborg­ar­svæðinu sem felur í sér sameig­inlega framtíðarsýn og heildar­hugsun fyrir svæðið.

Samgöngusátt­málinn kveður á um að á næstu 15 árum verði ráðist í einar umfangsmestu samgöngu­fram­kvæmdir sögunnar til að flýta úrbótum á höfuðborg­ar­svæðinu.

Framkvæmd Samgöngusátt­málans er í höndum Betri samgangna ohf.

  • Lands-, Svæðis-, Bæjarkjarni
  • Samgöngu- og þróunarás
  • Vaxtarmörk
  • Vegir
Sjálfbært borgarsamfélag

Þróunar- og samgönguásar

Borgar­línunni má líkja við slagæð, sem flytur fólk hratt og örugglega eftir helstu samgöngu- og þróunarásum höfuðborg­ar­svæðisins, sem skilgreindir eru í svæðis­skipulagi höfuðborg­ar­svæðisins 2040.

Umhverfis Borgar­línuna munu skapast tækifæri til að byggja ný og sjálfbær hverfi og að umbreyta eldri hverfum, með vægi almenn­ings­sam­gangna í fyrirrúmi. Gert verður ráð fyrir auknum bygging­ar­heimildum á þróunarásum með það að markmiði að þétta byggð.

Borgarlínan og Strætó vinna saman

Heildstætt leiðanet

Nýtt leiðanet verður grunnur að fram­tíð­ar­skipan almenn­ings­sam­gangna og felur í sér tvær gerðir leiða:

Stofnleiðir eru burðarásinn sem tengir saman helstu kjarna höfuðborg­ar­svæðisins. Þær breytast í borgar­línu­leiðir eftir því sem sérrými byggist upp.

Almennar leiðir þjóna hverfum sem ekki eru í göngufæri við stöðvar stofnleiða.

Sjáðu Nýja leiðanetið
Ný kennileiti

Borgar­línu­stöðvar

Vandaðar og vel hannaðar stöðvar verða ný kennileiti sem falla vel að umhverfinu og skapa spennandi borgarrými. Með einkennandi stöðvum, vögnum og upplýsingakortum verður til þekkt vörumerki sem verður órjúfanlegur hluti af sérkennum höfuðborgarsvæðisins.

Það verður gott aðgengi að og við yfirbyggðar stöðvarnar. Brautarpallurinn verður upphækkaður og því þrepalaust innstig í vagnana. Þá verður vagninn sjálfur rúmgóður með þrepalausu gólfrými.

Á stöðvum verður aðstaða til að geyma reiðhjól eða önnur sambærileg farartæki sem auðvelda fólki að ferðast síðasta spölinn á hagkvæman og virkan hátt.

Bein leið milli kjarna

Sérrými Borgar­línunnar

Til að hægt sé að auka tíðni þarf Borgarlínan að komast leiðar sinnar óháð bílaumferð. Á næstu árum verða lagðar borgar­línu­brautir og -reinar fyrir Borgar­línuna. Greint hefur verið hvar þörfin er mest fyrir sérrými að teknu tilliti til bílaum­ferðar.

Hluti sérrýmis mun nýtast fleiri en einni borgar­línuleið. Borgar­línu­brautir og -reinar munu einnig nýtast strætis­vögnum og neyðarakstri.

Æskilegt er að borgar­línu­brautir verði miðlægar í göturýminu. Kostir slíkrar útfærslu eru miklir því þannig verða tafir almenn­ings­sam­gangna lágmarkaðar og gott aðgengi verður að stöðvum. Ljóst er þó að sums staðar verður því ekki komið við og á köflum munu borgar­línu­vagnar aka í bílaumferð.

Þrepalaust aðgengi

Borgar­línu­vagnar

Vagnar Borgar­línunnar verða liðvagnar, knúnir af innlendum, vistvænum orkugjöfum. Vagnarnir verða ýmist 18 metra (einn liður) eða 24 metra langir (tveir liðir) og því lengri en hefðbundnir strætis­vagnar og geta tekið allt að 160 farþega. Vagnar Borgar­línunnar geta ekið inn í og út úr sérrýmum eftir þörfum.

Vagnarnir eru rýmri að innan en hefðbundnir almenn­ings­vagnar og hafa bæði þrepalausan gólfflöt og þrepalaust aðgengi frá brautarpalli.

Uppbygging á Hverfisgötu

Grænt og aðlaðandi umhverfi

Göturými

Við uppbyggingu sérrýmis þarf oft að endurhanna allt göturýmið. Þá verður lögð sérstök áhersla á að gera umhverfið allt meira aðlaðandi, bæta aðgengi og auka við gróður þar sem færi gefst.

Í kjörsniði Borgar­línunnar er sýnt hvernig koma megi fyrir öllum ferðamátum í ólíku göturými, auk öryggissvæða og svigrúms. Á myndinni hér til hiðar er kjörsniðið efst en önnur snið eru ólíkar útfærslur þar sem ekki er hægt að ná kjörsniði.

Borgar­línu­brautir verða oftast miðlægar og akbrautir fyrir bíla beggja vegna. Sú útfærsla er algengust í nýlegum hágæða almenn­ings­sam­göngu­kerfum en þannig eru tafir almenn­ings­sam­gangna lágmarkaðar og hægt er að tryggja gott aðgengi að stöðvum.

Miðlæg borgarlínubraut
Jaðarlæg borgarlínubraut
Borgarlína í blandaðri umferð
Miðlæg borgarlínubraut og stígar
Aðeins borgarlínubrautir