Fyrsta hluta framkvæmda fyrir Fossvogsbrú, gerð landfyllinga í Kópavogi og Reykjavík, miðar vel áfram og er vinnu nú lokið við fyllingar á Kársnesi en þær hófust um miðjan janúar síðastliðnum. Verkið er á áætlun og hafa efnisflutningar í fyllingar Reykjavíkurmegin staðið yfir í um einn mánuð. Þá standa yfir útboð í sjálfa brúarsmíðina og í umsjón og eftirlit með byggingu brúarinnar.
Gert er ráð fyrir að heildar fyllingarmagn Reykjavíkurmegin verði um 150 þúsund rúmmetrar en landfyllingin er ekki eingöngu gerð fyrir smíði Fossvogsbrúar heldur einnig fyrir framkvæmdir sem Reykjavíkurborg stendur að í Skerjarfirði. Framkvæmdum miðar vel og nú þegar hefur 16 þúsund rúmmetrum af fyllingum verið komið fyrir eða ríflega 10%.
Umfang landfyllinga og staðsetning Reykjavíkurmegin sést vel á nýlegri fréttaljósmynd Morgunblaðsins sem Árni Sæberg ljósmyndari tók og sjá má hér fyrir neðan.
Útboð fyrir brúarsmíði og umsjón og eftirlit
Fyrirhugað er að gerð landfyllinga verði lokið 1. nóvember 2026 og nú standa yfir útboð í sjálfa brúarsmíðina og í umsjón og eftirlit með byggingu Fossvogsbrúar. Samkvæmt áætlun verður Fossvogsbrú tilbúin til notkunar haustið 2028.
Nánari upplýsingar um útboð Betri samgangna vegna Fossvogsbrúar má nálgast á útboðsvefnum.
Ýmsar öryggisráðstafanir hafa verið gerðar til að tryggja öryggi vegfarenda á landi og í sjó og allar upplýsingar um framkvæmdirnar má finna á sérstakri vefsíðu. Náið samráð er haft við Isavia um öryggismál vegna framkvæmdanna Reykjavíkurmegin sem eru við suðurenda flugbrautar 01/19 á Reykjavíkurflugvelli.