Verksamningur undirritaður um smíði Fossvogsbrúar

Betri samgöngur annars vegar og Ístak hf. & Per Aarsleff AS hins vegar skrifuðu í dag undir verksamning um smíði Fossvogsbrúar. Fyrirtækin áttu lægra af tveimur tilboðum í verkið og hljóðar samningurinn upp á um 7.661 m.kr. Samningurinn var undirritaður rafrænt í Fossvogi þar framkvæmdir standa nú yfir við gerð landfyllinga fyrir brúna, af Davíð Þorlákssyni, framkvæmdastjóra Betri samgangna og Karli Andreassen, forstjóra Ístaks.

Fossvogsbrú er mikilvægt mannvirki í framtíðar skipulagi samgangna á höfuðborgarsvæðinu. Brúin verður lykilhluti af fyrstu lotu Borgarlínunnar og mun einnig nýtast Strætó, gangandi og hjólandi. Félagshagfræðileg greining á fyrstu lotu Borgarlínunnar sýnir að samfélagslegur ábati af henni verði um 26 milljarðar til 30 ára og arðsemin um 7%. Það þykir hátt þegar innviðaverkefni eru metin. Fossvogsbrú verður einnig lykilhlekkur í göngu- og hjólastígakerfi höfuðborgarsvæðisins og styttir verulega vegalengdir milli syðri hluta höfuðborgarsvæðisins og miðborgarinnar. Tafir á verklokum myndu hafa slæm áhrif á samgöngur á höfuðborgarsvæðinu, húsnæðismarkaðinn o.fl. Þá verður brúin mikilvæg fyrir forgangsakstur viðbragðsaðila og styttir viðbragðstíma sjúkraflutninga, slökkviliðs og lögreglu verulega.

Heildarkostnaður innan fjárheimilda
Fossvogsbrú er einn af mörgum verkþáttum í fyrstu lotu Borgarlínunnar. Hér eftir sem hingað til verður lögð rík áhersla á að fyrsta lota Borgarlínunnar, og önnur verkefni Samgöngusáttmálans, verði innan fjárhagsáætlunar uppfærðs sáttmála sem samþykktur var í fyrra. Ætíð verður allra hagkvæmustu leiða leitað til að ná þeim markmiðum sem að er stefnt. Þótt samningsfjárhæð sé hærri en kostnaðarmat rúmast heildarkostnaður við byggingu brúarinnar innan fjárheimilda Samgöngusáttmálans þegar allar fjárfestingar fyrstu lotu eru skoðaðar.

Léttir á umferð og styttir ferðatíma
Gert er ráð fyrir að um 10.000 manns muni nota brúna daglega þegar Borgarlínan er komin í fulla virkni. Það er svipaður fjöldi og notar Hvalfjarðargöngin, fjölförnustu göng landsins. Brúin mun blasa við yfir 70.000 manns sem keyra um Kringlumýrarbraut í Fossvogi daglega og hagnast þeim því hún léttir á umferðinni þar. Sú mikla uppbygging sem hefur átt sér stað á Kársnesi frá 2013 er öll háð því að brúin verði byggð. Hún mun auka aðgengi að miðborginni og hefur mikil áhrif á ferðatíma að og frá þremur stærstu vinnustöðum landsins sem eru í og við Vatnsmýrina, Háskóla Íslands, Háskólann í Reykjavík og Landspítala. Brúin verður staðsett í hjarta höfuðborgarsvæðisins og mun standa þar sem kennileiti um langa framtíð.

Verksamningurinn var undirritaður rafrænt á landfyllingunum sem verið er að gera fyrir brúna í Fossvogi.

Nánari upplýsingar um framkvæmdirnar í Fossvogi má finna á sérstakri vefsíðu:
Framkvæmdir fyrir Fossvogsbrú