Hönnun Hlemmtorgs og Borgarlínu við Hlemm og hluta Laugavegar var kynnt í umhverfis- og skipulagsráði Reykjavíkur í síðustu viku. Áætlað er að framkvæmdir hefjist í apríl eða maí á næsta ári og verði lokið um mitt ár 2027.

Hlemmur - horft til suðausturs.
Verkefnið er umfangsmikið og flókið og hefur kallað á víðtækt samstarf. Á fundi umhverfis- og skipulagsráðs borgarinnar mættu fulltrúar frá Verkefnastofu Borgarlínu og fulltrúi frá alþjóðlegu landslags- og arkitektastofunni Mandaworks sem vann samkeppni Reykjavíkurborgar um landslagshönnun fyrir Hlemmtorg. Hönnunin hlaut jákvæðar viðtökur í ráðinu og Borgarlínuleiðir og hjólaleiðir taldar vel útfærðar í gegnum torgið.

Uppdráttur úr verkhönnun Hlemms.
Hlemmsvæðið er skipulagt sem miðborgartorg og þar er verið að endurskapa almenningsrými fyrir alla aldurshópa með aðgengi fyrir öll. Svæðið verður tilvalið fyrir ýmiss konar viðburði og leik í öruggu umhverfi. Almenningssamgöngur verða eina akandi umferðin um torgið.

Dæmi um ásýnd Borgarlínuskýla og -palla.

Uppdráttur úr verkhönnun Laugavegar næst Hlemmi.
Frumdragaskýrsla var samþykkt fyrir svæðið í janúar 2021, forhönnun er lokið og deiliskipulag hefur verið samþykkt. Verkhönnunin er nú í rýni og áætlað að því ferli ljúki í lok janúar.

Hlemmur – horft til suðvesturs.

Þversnið í göturými Laugavegar (133-159).
Myndir: Mandaworks og VSÓ ráðgjöf.