Staða hönnunar, skipulags og framkvæmda við Borgar­línuna

Vinnu við umhverfismat og aðalskipulagsbreytingar vegna fyrstu lotu Borgarlínunnar er lokið og vinna við deiliskipulagsgerð stendur nú yfir. Þessi fyrsti hluti Borgarlínu nær frá Ártúnshöfða, um Suðurlandsbraut, miðborgina, svæði Háskóla Íslands, Landsspítala og Háskólans í Reykjavík, yfir Fossvogsbrú og í Hamraborg. Áætlað er að fyrsta lota verði tilbúin árið 2031 en innviðir, eins og sérakreinar, munu nýtast strætó fyrr eða um leið framkvæmdir við hvern hluta klárast.

Umhverfismat og Aðalskipulag

Skipulagsstofnun hefur staðfest umhverfismatsskýrsla fyrir 1. lotu, sem var í kynningarferli frá miðjum nóvember 2024 fram í lok janúar 2025. Rammahluti Aðalskipulags Kópavogs 2019-2040 fyrir Borgarlínu lotu 1 var samþykktur í bæjarstjórn í maí 2025 og breyting á Aðalskipulagi Reykjavíkur 2040 vegna Borgarlínu lotu 1 var samþykkt í borgarstjórn í júní 2025.

Deiliskipulag fyrir Lotu 1

Þar sem lota 1 er langur kafli þá er deiliskipulagi fyrir hana skipt upp í nokkra mismunandi hluta. Bæði vegna þess að sums staðar er Borgarlínan hluti af stærra deiliskipulagi viðkomandi svæðis (t.d. Hlemmur og NLSH) og einnig til að samræma framgang hönnunar mismunandi hluta lotunnar og framkvæmdatíma.

  • Nú þegar liggja fyrir samþykktir í núgildandi deiliskipulagi fyrir Ártúnshöfða svæði 1, Hlemm, NLSH, Nauthólsvík og Fossvogsbrú.
  • Deiliskipulag fyrir Borgarlínu um Laugaveg á milli Kringlumýrarbrautar og Katrínartúns og einnig deiliskipulag fyrir Borgarlínu um nyrðri hluta Nauthólsvegs voru í kynningarferli frá desember 2024 til mars 2025 og samþykkt í borgarráði í júlí 2025.
  • Deiliskipulag fyrir Borgarlínu um Stórhöfða, á neðra svæði Ártúnshöfða, var í kynningarferli í janúar til mars 2025 og var samþykkt í umhverfis- og skipulagsráði í ágúst 2025.
  • Deiliskipulagsbreyting HR sem inniheldur m.a. legu Borgarlínu í gegnum svæðið, var í kynningarferli frá maí til júlí 2025 og samþykkt í borgarráði í október 2025.
  • Deiliskipulagsbreyting Kársneshafnar fyrir Borgarlínu um Vesturvör til að tengja við Fossvogsbrú, var í kynningarferli frá maí til júlí 2025 og samþykkt í skipulags- og umhverfisráði í október 2025.

Staða hönnunar og framkvæmda

Á öllum ofantöldum leggjum er forhönnun jafnframt lokið og á sumum þeirra er verkhönnun sömuleiðis lokið eða er á lokastigi.

Framkvæmdir munu samkvæmt áætlun hefjast á nokkrum köflum lotu 1 á árinu 2026.

  • Efri hluti Stórhöfða.
  • Laugavegur á milli Kringlumýrarbrautar og Katrínartúns.
  • Borgarlínan um Hlemm.
  • Nauthólsvegur og lega Borgarlínu í gegnum HR svæðið sem og Fossvogsbrú ásamt tengingum að henni norðan megin, þ.e. meðfram flugvallargirðingunni við Nauthólsvík.