Áfangaúttekt er lokið á gerð landfyllinga og sjóvarna á Kársnesi í Kópavogi og hafa verktakarnir Ístak og Per Aarsleff AS formlega fengið lykillinn að þessum hluta framkvæmdasvæðisins til að hefja undirbúning brúarsmíði. Betri samgöngur gerðu í nóvember verksaming um smíði Fossvogsbrúar en framkvæmdir við landfyllingar hófust í janúar í fyrra. Vinna við landfyllingar og sjóvarnir standa enn yfir Reykjavíkurmegin en áætlað er að þeim ljúki síðla vors.

Fossvogsbrúin Alda verður 270 metra löng og tengir vesturhluta Kópavogs við Reykjavík og er hluti af fyrstu lotu Borgarlínunnar. Framkvæmdir við gerð landfyllinga og sjóvarna hafa gengið mjög vel en þær verða um 2,3 hektarar auk 0,4 hektara á landi. Vegagerðin samdi í fyrra við Gröfu og grjót um gerð landfyllinganna og hefur haft umsjón með framkvæmdinni. Með úttektinnni og afhendingunni í gær hafa Betri samgöngur tekið við umsjón framkvæmdarinnar.

Fulltrúar frá Ístaki, Vegagerðinni, Norconsult (eftirlitsaðili), Betri samgangna og Verkefnastofu Borgarlínu á landfyllingunni á Kársnesi.
Með áfangaúttektinni eru öll gæðagögn, svo sem mælingar, prófanir og innmælingargögn lögð fram. Við tekur undirbúningsvinna Ístaks og Per Aarsleff AS fyrir brúarsmíði en ráðgert er að þær framkvæmdir hefjist í vor. Fyrirhugað er að Fossvogsbrúin Alda verði tilbúin til notkunar haustið 2028 fyrir almenningssamgöngur, gangandi og hjólandi auk slökkviliðs, lögreglu og sjúkrabíla.

Horft í austur af landfyllingunni á Kársnesi í Kópavogi. Hægra megin er bryggjuhverfið við Naustavör.

Horft í norður af landfyllingunni Kópavogsmegin. Hér mun brúin Alda tengja Reykjavík og austurhluta Kópavogs yfir Fossvoginn.
Allar helstu upplýsingar um framkvæmdir fyrir Fossvogsbrú má nálgast á sérstakri vefsíðu: borgarlinan.is/framkvaemdir
Tengd frétt: https://www.borgarlinan.is/utgefid-efni/frettir/verksamningur-undirritadur-um-smidi-fossvogsbruar

Ásýndarmynd af brúnni Öldu sem tengja mun Kópavog og Reykjavík yfir Fossvoginn.