Það er ekki markmið með tilkomu Borgarlínunnar að þrengja að bílaumferð. Þvert á móti, því með því að bjóða upp á hágæða almenningssamgöngur sem raunhæfan valkost verður bílaumferð minni en ella,” segir Eyjólfur Árni Rafnsson, doktor í verkfræði og stjórnarformaður Betri samgangna í grein í Morgunblaðinu í dag. Hann segir að við úrlausnir áskorana í umferðinni á höfuðborgarsvæðinu sé það ekki nóg að breyta bara einu atriði í jöfnunni en ekki öðrum. „Það er svolítið eins og að Veðurstofan myndi bara mæla vindhraða, en hætti að mæla hitastig og úrkomu.“
Ásýndarmynd. Horft til norður, séð yfir Reykjanesbraut. Sérreinar Borgarlínu lengst til hægri í rauðum lit.
Grein eftir Eyjólf Árna Rafnsson:
„Er veður bara vindur?“
Það er gefandi, fyrir okkur sem berum ábyrgð á því að hrinda Samgöngusáttmálanum í framkvæmd, að taka þátt í umræðunni um samgöngumál á höfuðborgarsvæðinu við almenning og stjórnmálamenn. Samgöngusáttmálinn hefur að markmiði að bæta umferð á höfuðborgarsvæðinu á sem hagkvæmastan hátt með því að bæta samgöngur fyrir ólíka ferðamáta, hvort sem um er að ræða fyrir einkabílinn, almenningssamgöngur, hjólandi vegfarendur eða gangandi.
All margir hafa skoðanir á því hvernig þetta beri að gera og oft koma fram hugmyndir sem vert er að skoða. Ein hugmynd sem hefur komið fram er um tilraunaverkefni sem felst í því að loka akreinum tímabundið þar sem áformað er að breyta almennum akreinum í sérreinar fyrir almenningssamgöngur eins og Borgarlínu og neyðarumferð. Skoðum þessa hugmynd nánar.
Ekki markmið að þrengja að bílaumferð
Í fyrsta lagi ber að nefna að það er ekki markmið með tilkomu Borgarlínunnar að þrengja að bílaumferð. Þvert á móti því með því að bjóða fólki upp á hágæða almenningssamgöngur sem raunhæfan valkost verður bílaumferð minni en ella. Vert er að hafa í huga að innviðauppbygging fyrir almenningssamgöngur er unnin samhliða mikilvægri uppbyggingu á stofnvegum á höfuðborgarsvæðinu. Þá er rétt að benda á að það eru sveitarfélögin á hverjum stað sem stýra skipulaginu hjá sér og þar með einnig því hvernig samgöngum verður háttað. Það ræðst síðan af aðstæðum á hverjum stað hversu mikil umferðin er og hversu mikið pláss er fyrir alla ferðamáta.
Ásýndarmynd. Drög að hönnun á Borgarholtsbraut.
Þurfum ekki að finna upp hjólið
Í öðru lagi segir það okkur ekki mikið ef við breytum bara einu atriði í jöfnunni, en ekki öðrum. Það er svolítið eins og að Veðurstofan myndi bara mæla vindhraða, en hætti að mæla hitastig og úrkomu. Lykilbreyta í þeirri umbyltingu sem mun felast í Borgarlínunni er stóraukið framboð af hágæða almenningssamgöngum. Borgarlínan mun víðast hvar aka á sérakgreinum þannig að hún verður fljótari og áreiðanlegri en Strætó getur verið í dag og tíðni verður meiri sem þýðir bætt þjónustustig fyrir notendur.
Í þriðja lagi þurfum við ekki að finna upp hjólið. Við getum skoðað hvaða áhrif bættar almenningssamgöngur hafa haft hér heima og erlendis. Hvert sem horft er í heiminum hefur tilkoma hágæða almenningssamgangna leitt til aukinnar notkunar á þeim. Aukin notkun þeirra greiðir götu þeirra sem kjósa að ferðast í einkabíl og er það vel. Allar borgir Norðurlanda, og þótt víðar væri leitað, eru að leggja áherslu á uppbyggingu fjölbreyttra ferðamáta, einkum almenningssamgangna og hjóla- og göngustíga. Þar sem vel er á þessum málum haldið er árangur góður sem liðkar fyrir annarri umferð og álag í umferðinni dreifist betur.
Gott aðgengi lykilatriði
Við getum líka skoðað reynsluna hér og tölur úr ferðavenjukönnunum. Áður en bílaeign var eins almenn og hún er í dag, og farið var í mikla fjárfestingu fyrir bílaumferð, var notkun á almenningssamgöngum meiri. Þá er einnig vert að hafa í huga að notkun á almenningssamgöngum í dag er misjöfn eftir hverfum. Í þéttbýlum hverfum þar sem auðvelt er að taka Strætó, ganga og hjóla, eru þeir fararmátar vinsælli en í hverfum þar sem það er erfiðara. Það segir okkur að meginástæða þess að fleiri velja ekki þessa ferðamáta eru ekki vegna veðurs eða vegna þess að það sé með einhverjum hætti inngróið í gen eða menningu okkar Íslendinga að allir þurfi alltaf að fara allar ferðir akandi á sínum bíl. Gott aðgengi að öflugum almenningssamgöngum er í senn lykilatriði og lífsgæði og eykur notkun þeirra.
Uppbygging líka fyrir bíla og stíga
Samgöngusáttmálinn gerir ráð fyrir mikilli uppbyggingu vega fyrir bílaumferð, Borgarlínuna, hjóla- og göngustíga o.fl. Þótt bjartsýnustu spár gangi eftir um notkun almenningssamgangna verður einkabíllinn áfram vinsælasti ferðamátinn hér eins og annarsstaðar. Þessu er ekki verið að reyna að breyta með Samgöngusáttmálanum, en ef við drögum ekki úr vexti umferðartafa með því að bjóða upp á aðra valkosti í ferðamáta þá stefnir í enn meira óefni í samgöngumálum á höfuðborgarsvæðinu.
Höfuðborgarsvæðið er eitt atvinnu-, mennta- og menningarsvæði og með Samgöngusáttmálanum tókst víðtæk samstaða sveitarfélagana á höfuðborgarsvæðinu og ríkisins um að nýta skattfé almennings til að bæta umferð á svæðinu með sem hagkvæmustum hætti. Þeim framsýnu einstaklingum sem tóku þá ákvörðun, þvert á pólitískar skoðanir, ber að þakka.
Höfundur er doktor í verkfræði og stjórnarformaður Betri samgangna ohf.