Félagsheimilið sem Sportkafarafélag Íslands lét reisa við Nauthólsveg 100A í Reykjavík á árunum 1989-1990 hefur verið fært yfir á aðliggjandi lóð Nauthólsvegar númer 100. Reykjavíkurborg gerði samkomulag við félagið um tilfærsluna vegna nýrra stígatenginga og nýrrar akreinar fyrir Borgarlínuna sem tengjast mun Fossvogsbrú. Vel gekk að færa húsið.
Mynd: Arnbjörn Eyþórsson
Húsið var á sínum tíma reist til bráðabirgða og lengi hafði staðið til að færa það. Ýmsar lausnir voru skoðaðar en niðurstaðan varð sú að færa það yfir á næstu lóð, um það bil 30 metrum frá upprunalegu staðsetningunni.
Þar sem félagsheimilið er við enda flugbrautar Reykjavíkurflugvallar þurfti leyfi frá Isavia fyrir verkinu og Veitur þurftu einnig að aftengja lagnir. Hífingin gekk vel og félagsheimilið er nú, 35 árum frá byggingu, komið með nýtt staðfang.
Verið er að festa húsið við nýjar undirstöður, það endurhannað að innan og ýmsar lagfæringar gerðar. Þá stendur til að byggja nýjan pall og fjölga neyðarútgöngum.