Samið við Mannvit og COWI um nýtt samgöngulíkan fyrir höfuðborg­ar­svæðið

Í dag var gengið frá samningi við Mannvit og dönsku ráðgjafastofuna COWI um gerð nýs samgöngulíkans fyrir höfuðborgarsvæðið.

Með nýju samgöngulíkani er stefnt að nákvæmari greiningum en hægt hefur verið að fá hingað til á samspili ólíkra ferðamáta. Líkanið er forsenda þess að hægt sé t.d. að meta samspil Borgarlínu og breytts leiðanets Strætó og verður jafnframt grunnur að greiningum á borð við leiðarskipulag, vagnastærðir, vagnafjölda, loftslagsáhrif, samfélagsleg áhrif og kostnaðarmat.

Óskað var eftir tilboðum í nýtt samgöngulíkan fyrir höfuðborgarsvæðið þann 4. júní síðastliðinn og bárust fimm tilboð sem öll voru frá mjög hæfum sérfræðingum og gerðu öll ráð fyrir samvinnu innlendra og erlendra sérfræðinga. Þetta voru fyrirtækin EFLA í samvinnu við sænsku ráðgjafana WSP, Mannvit í samvinnu við dönsku ráðgjafana COWI, Intraplan Consult sem er þýskt ráðgjafafyrirtæki, Verkís í samvinnu við Multiconsult í Noregi og T-Mode í Serbíu og VSÓ ráðgjöf í samvinnu við PTV Group í Þýskalandi.

Tilboð Mannvits og COWI fékk hæstu einkunn þriggja manna dómnefndar og því var gengið til samninga við þau. Gert er ráð fyrir að líkanið verði tilbúið í janúar 2020. Eitt af lykilmarkmiðum Borgarlínuverkefnisins er að tryggja uppbyggingu innlendrar þekkingar á sviði almenningssamgangna og samspili ólíkra ferðamáta.