Leit að hönnun­ar­ráðgjafa fyrir Borgarlínu hafin

Segja má að leit að hönnunarráðgjafa vegna Borgarlínu hafi byrjað þann 6. september sl. þegar Verkefnastofa Borgarlínu hóf að miðla upplýsingum um verkefnið til helstu sérfræðinga á þessum vettvangi bæði hér á landi og erlendis, til að kanna áhuga þeirra. Það ferli sem nú er hafið kallast á ensku Request for Information (RFI) og stendur til 1. október 2019. Í kjölfarið er gert ráð fyrir að halda opinn kynningarfund þar sem íslenskum og erlendum sérfræðingum sem áhuga hafa á verkefninu verður boðið að koma og fá frekari upplýsingar og að byggja upp verkefnateymi sem síðan verður boðið í forvalsútboð.

Á næstu mánuðum fer fram fjölþætt greiningavinna hjá Verkefnastofu Borgarlínu sem meðal annars miðar að því að svara spurningum um nákvæmar staðsetningar á stöðvum, hvaða orkugjafi henti best, áhrif Borgarlínu á umhverfið, loftslag og aðra ferðamáta og hvernig hægt sé að tryggja aðlaðandi umhverfi fyrir íbúa höfuðborgarsvæðisins. Samhliða þessari greiningarvinnu þarf að skrifa útboðsgögn fyrir verkhönnun Borgarlínu og finna hönnunarráðgjafa fyrir verkefnið.