Fyrstu vinnustofur með hönnuðum Borgar­línunnar

Fyrstu vinnustofur hönnunarteymis Borgarlínu voru haldnar á dögunum. Þar komu saman helstu aðilar Borgarlínuverkefnisins ásamt hönnunarráðgjöfunum sem kalla sig Team Framtíðarlínan, en þeir koma frá verkfræðistofunum Artelia, MOE og Hnit og arkitektastofunum Gottlieb Paludan og Yrki arkitektar.

Hönnunarráðgjafarnir leiddu vinnustofurnar þar sem umhverfismál, samgöngur, hreyfanleiki og hönnunaráherslur voru í brennidepli. Þátttakendur komu frá þeim sem standa að Borgarlínu, svo sem Reykjavík, Kópavogi, Mosfellsbæ, Seltjarnarnesi, Hafnarfirði og Garðabæ, Strætó og verkefnastofu Borgarlínu sem er undir hatti Vegagerðarinnar.

Hrafnkell Á. Proppé, forstöðumaður verkefnastofu Borgarlínu, segir vinnu með ráðgjöfum vegna útfærslu og hönnunar á fyrstu lotu Borgarlínu fara vel af stað. „Hluti af ráðgjafateyminu kom hingað til lands til að skoða umhverfi og aðstæður vegna verkefnisins. Haldnar voru þrjár vinnustofur til að safna efni í svokallað Target Report, en því er ætlað að skerpa línurnar fyrir næsta hönnunarstig með það að leiðarljósi að einfalda ákvarðanir í ferlinu,“ segir hann.

Tine Kjærulff Bay, sem leiðir hönnunarteymi á vegum Gottlieb Paludan Arcitects, er ánægð með þær hugmyndir og umræður sem komu fram á vinnustofunni um hönnunaráherslur.

„Við nýttum tímann á Íslandi vel og hittum meðal annars samstarfsaðila okkar á Íslandi til að stilla saman strengi okkar. Við kortlögðum svæðið þar sem fyrsta lota Borgarlínunnar kemur til með að liggja í gegnum Kópavog og Reykjavík. Þá gerðum við ýtarlega greiningu á borgarmyndinni og landslagi, gróðurfari, útsýni og umhverfi til að fá tilfinningu fyrir svæðinu og sjá hvaða möguleika það býður upp á varðandi hönnunina,“ segir hún.

Á vinnustofunni héldu hönnunarráðgjafar kynningar og  aðilar frá verkefnastofu Borgarlínunnar og öðrum samstarfsaðilum lögðu sitt af mörkum. Aðilar frá sveitarfélögunum á höfuðborgarsvæðinu kynntu sín bæjarfélög og þeirra sérkenni.

„Við héldum stutta kynningu á hvernig höfuðborgarsvæðið kemur okkur fyrir sjónir og sögðum við frá okkar fyrstu hugmyndum og greiningu á verkinu hvað varðar borgarlínukerfi erlendis og hérlendis,“ segir Tine.

Hrafnkell segir margt gott hafa komið út úr vinnustofunni sem muni nýtast vel við að undirbúa breiðara samtal við samfélagið sem verður hluti af næsta hönnunarstigi Borgarlínuverkefnisins.