Sjávarbotn Fossvogs rannsakaður

Rannsóknir á sjávarbotni Fossvogs standa nú yfir. Boraðar verða 32 rannsóknarholur á fyrirhuguðu brúarstæði Öldu – brúar  yfir Fossvog, sem er hluti af fyrsta áfanga uppbyggingar vegna Borgarlínunnar. Burðarhæfi jarðlaga, dýpt niður á klöpp, jarðtæknilegir eiginlegar jarðefna með tilliti til stæðni og sigeiginleikar er á meðal þess sem er til rannsóknar.

Séð yfir Fossvoginn þar sem rannsóknarvinnan fer fram.

Séð yfir Fossvoginn þar sem rannsóknarvinnan fer fram.

Friðrik Þór Halldórsson, rannsóknarmaður hjá Vegagerðinni, er einn þeirra sem koma að þessum rannsóknum.

„Við borum niður í sjávarbotninn, þar sem brúarstæðið kemur til með að vera. Við skoðum meðal annars hvernig botninn er og hversu mikil laust set er niður á klöppina, það er að segja setþykktina. Svo verða tekin óhreyfð sýni til að geta skoðað efnasamsetningu setsins og finna út hver styrkur þess er. Tekið verður svokallað þrírásarpróf til að mæla eiginleikana í efninu og hvernig það er samsett,“ segir hann. 

Undirbúningur fyrir þessar rannsóknir hefur staðið yfir um alllangt skeið. Á meðal þess sem hefur áhrif á framvinduna er veður og vindar og ekki síst sjólag. Að auki þurfti að aftengja og flytja háspennustreng Veitna áður en rannsóknir gátu hafist.

„Það er að mörgu að hyggja. Einnig þarf að taka tillit til flugumferðar og því er byrjað að skoða sjávarbotninn Kópavogsmegin og farið þaðan yfir til Reykjavíkur,” segir Friðrik.

Að þessum rannsóknum koma auk Vegagerðarinnar, Reykjavíkurborg, Kópavogsbær, Veitur og EFLA. Tækjabúnaður og mannskapur sem vinnur verkið kemur frá Vegagerðinni.