Ásdís Kristinsdóttir tekur tímabundið við stöðu forstöðumanns Verkefnastofu Borgarlínu hjá Vegagerðinni þann 1. maí næstkomandi. Hún tekur við keflinu af Arndísi Ósk Ólafsdóttur Arnalds, sem ráðin hefur verið í stöðu framkvæmdastjóra mannvirkjasviðs Vegagerðarinnar.
Ásdís hefur góða þekkingu og reynslu af starfsemi Verkefnastofu Borgarlínu, en hún hefur áður leyst af sem staðgengill forstöðumanns.
Hún á að baki 12 ára starfsreynslu hjá Veitum og Orkuveitu Reykjavíkur þar sem hún gegndi síðast starfi forstöðumanns tækniþróunar en þar áður gegndi hún starfi forstöðumanns verkefnastofu og sviðsstjóra tæknimála. Á undanförnum árum hefur Ásdís setið í stjórnum Gagnaveitu Reykjavíkur, Keilis – miðstöðvar fræða og vísinda, Metans og Nýorku. Þá hefur hún kennt mastersnemum í iðnaðarverkfræði við Háskóla Íslands straumlínustjórnun.
Ásdís er annar eigandi ráðgjafarstofunnar Gemba, sem sérhæfir sig í ráðgjöf á sviði umbótamenningar, ferlagreininga, verkefnastjórnunar og stefnumótunar.
Ásdís er vélaverkfræðingur MSc. frá Canterbury University á Nýja Sjálandi. Hún hefur lokið námi í ICF vottuðu markþjálfunarnámi og C-vottun í IPMA í verkefnastjórnun.