Fyrsta lota Borgar­línunnar skilar samfélaginu tugmilljarða ábata

Fyrsta lota Borgarlínunnar, sem áætlað er að opni árið 2024, er þjóðhagslega arðbært verkefni samkvæmt félagshagfræðilegri greiningu (e. socio-economic analysis) sem unnið var af COWI og Mannviti.
Horft er til 30 ára í matinu en samfélagslegur ábati er metinn tæplega 26 milljarða kr. að núvirði umfram stofn- og rekstrarkostnað. Metin voru áhrif á alla samgöngumáta í nýju umferðarlíkani fyrir höfuðborgarsvæðið.
Notast var við sömu aðferðafræði og beitt er víða erlendis m.a. Metro í Kaupmannahöfn, léttlestarkerfi í Óðinsvéum og Árósum. Er þetta í fyrsta skipti sem slíkt er gert fyrir stóra samgönguframkvæmd á Íslandi.

Fjárfesting í uppbyggingu almenningssamgangna á fyrstu lotu Borgarlínunnar mun skila samfélagslegum ábata sem nemur 26 milljörðum króna og arðsemi verkefnisins (innri vextir) er metin rétt tæp 7%. Þetta er meðal þess sem félagshagfræðileg greining á nýju samgöngukerfi á höfuðborgarsvæðinu leiðir í ljós. Í efnahagslegri greiningu OECD á Íslandi árið 2019 var ein helsta ráðleggingin til að bæta opinberar fjárfestingar sú að framkvæma ítarlega félagshagfræðilega greiningu áður en ráðist er í stór innviðaverkefni.

Virkar samgöngur spara tíma og pening
Borgarlínan felur í sér stóraukna þjónustu við almenning með styttri ferða-og biðtíma, færri skiptingar og betra aðgengi að biðstöðvum. Tímasparnaðurinn sem í þessu felst skiptir farþega miklu því samkvæmt greiningunni er búist við að ábati þessi svari til 94 milljarða króna að núvirði á þrjátíu ára tímabili. Þessar umbætur munu jafnframt leiða til verulegrr fjölgunar farþega almenningssamgangna Strætó og Borgarlínu. Samhliða uppbyggingu Borgarlínunnar verða innviðir fyrir hjólreiðafólk og gangandi stórbættir. Þessi innviðauppbygging mun stytta ferðatíma hjólreiðafólks verulega og skilar samfélagslegum ábata upp á 1,2 milljarða króna

Vistvænn kostur sem eykur umferðaröryggi
Aukin notkun almenningssamgangna og hjólreiða draga úr bílaumferð sem leiðir af sér minni hljóðmengun, loftmengun og losun gróðurhúsalofttegunda. Tilkoma Borgarlínunnar skilar einnig samfélagslegum ávinningi vegna fækkunar bílslysa um 2,6 milljarða króna.

Skýrsluna er að finna hér á vef Borgarlínu – https://borgarlinan.is/data/A133201Report%20Socioeconomic%20analysisFINAL.pdf

Nánari upplýsingar veitir
Lilja Guðríður Karlsdóttir,
samgönguverkfræðingur hjá Verkefnastofu Borgarlínunnar
845 9966 // lilja@borgarlina.is