Samningur undirritaður um verkefna­stjórn Borgar­línunnar

Þann 27. október 2020 var undirritaður samningur um verkefnastjórnun og ráðgjöf fyrir Borgarlínuna. Ráðgjafateymið samanstendur af fyrirtækjunum Mannviti, Cowi frá Danmörku og Arup frá Englandi.

Teymið var eitt af fjórum teymum sem sendu inn tilboð í verkefnið sem verkefnastofa Borgarlínunnar auglýsti á vormánuðum. Þrjú teymi voru valin eftir forval og tóku þau þátt í umfangsmiklu tilboðsferli í sumar en í lok þess hlaut teymi Mannvits, Cowi og Arup hæstu einkunn fyrir útfærslu auk þess sem tilboð þeirra var hagstæðast. Teymið býr jafnframt yfir mikilli reynslu af undirbúningi, skipulagi og framkvæmd sambærilegra verkefna á erlendri grundu sem mun nýtast vel við framvindu verkefnisins. En teymið hefur komið að sambærilegum verkefnum í Danmörku, Noregi og Englandi.

Ráðgjöfin felur í sér að veita verkefnastjórn og sérfræðiþekkingu á lykilsviðum við uppbyggingu Borgarlínu, nýs samgöngukerfis fyrir almenning á höfuðborgarsvæðinu. Hlutverk ráðgjafans felur m.a. í sér eftirfarandi þætti:

  • Verkefnastjórnun
  • Verkefnisgát, þar með talið kostnaðar- og framvindugát og áætlanagerð
  • Gæðastýringu, áhættumat, breytingastjórnun og innkaup
  • Stjórnun á hönnunarferli
  • Gerð og eftirfylgni samskipta- og samráðsáætlana
  • Stuðningsþjónustu
  • Stjórnun á framkvæmdatíma
  • Aðstoð við prófun og gangsetningu

Teymi Mannvits, Cowi og Arup er þannig ætlað að veita forystu og stuðning á lykilsviðum verkefnisins allt frá undirbúningi forhönnunar til afhendingar þess að loknum framkvæmdum.

Bergþóra Þorkelsdóttir forstjóri Vegagerðarinnar og Páll Björgvin Guðmundsson framkvæmdastjóri SSH undirrituðu samninginn fyrir hönd verkkaupa, en Borgarlínuverkefnið er hluti af Samgöngusáttmála höfuðborgarsvæðisins sem ríkið og sex sveitarfélög á svæðinu hafa skrifað undir um uppbyggingu á samgönguinnviðum á svæðinu. Verkefnið mun heyra undir félagið Betri samgöngur ohf. sem stofnað var í byrjun október og mun sjá um uppbyggingu samgönguinnviða í samræmi við Samgöngusáttmálann.

Markmið Samgöngusáttmálans er að auka öryggi, bæta samgöngur fyrir alla ferðamáta og minnka tafir, stórefla almenningssamgöngur og draga úr mengun af völdum svifryks og losun gróðurhúsalofttegunda til að standa við loftslagsmarkmið stjórnvalda og sveitarfélaga.

Frekari upplýsingar: Hrafnkell Á. Proppé.
Sími 892 2698
hrafnkell@borgarlinan.is

Myndin var tekin við undirritunina en á henni eru frá vinstri: Örn Guðmundsson forstjóri Mannvits, Bergþóra Þorkelsdóttir forstjóri Vegagerðarinnar og Páll Björgvin Guðmundsson framkvæmdastjóri SSH.